Aumasta ríkisstjórnin

Aldrei hefur setið aumari ríkisstjórn á Íslandi en sú sem nú situr og bíður örlaga sinna, sem munu ráðast fljótlega eftir rassskellinn sem hún fær á morgun. Það var grátbroslegt að horfa upp á fjármálaráðherrann í Kastljósi áðan, reynandi að bera í bætifláka fyrir ruglið í sjálfum sér.

Rifjum nú aðeins upp feril þessarar stjórnar og hringlandaháttinn. Í aðdraganda kosninganna í fyrravor voru höfð uppi hástemmd loforð af hálfu þeirra Jóhönnu og Steingríms. Þau lofuðu því að ef þau kæmust til valda yrði aldrei um neina leynd að ræða. Allt yrði uppi á borðunum eins og þau sögðu dögum oftar. Skjaldborg skyldi slegin um heimilin. Vandamálin sem fyrri ríkisstjórn skildi eftir sig yrðu leyst fljótt og vel með samningum og aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að sjálfsögðu láninu frá Rússum og öðrum vinum okkar. Lítum nú á efndirnar.

Æseifur I: Þetta fyrirbæri átti að keyra í gegnum þingið án þess að leggja gögnin fyrir þingheim. Leyndin átti að vera svo algjör, að þingmenn vissu ekki hvað þeir væru að samþykkja. Þeir skyldu bara samþykkja það þegjandi og hljóðalaust. Svo mjög voru málin höfð uppi á borðum, að þeirra eigin þingmenn gerðu þeim ljóst að ef málið yrði ekki opinberað fyrir þingheimi, þá yrðu þau að súpa seyðið af því. Þeim hefur vafalaust verið hótað að vantraust yrði lagt fram og samþykkt. Öðruvísi hefði þingið ekki haft sitt fram gegn þessum ofstopamönnum sem Jóhanna og Steingrímur hafa sýnt sig að vera.

Þingið gerði þeim skötuhjúunum ljóst að án breytinga og fyrirvara yrði Æseifur I ekki samþykktur. J+S börðust lengi um á hæl og hnakka en liðsmenn þeirra létu alls ekki að stjórn og ber að virða það við þingheim allan. Eftir mikið þras og bras var Æseifur I samþykktur á Alþingi á sumardögum. Einn af fyrirvörunum sem í honum eru er ákvæðið um það að til þess að hann taki gildi, skuli Bretar og Hollendingar báðir samþykkja hann. Því neituðu þjóðirnar báðar, svo að hann hefur aldrei tekið gildi og getur ekki gert það að óbreyttu samkvæmt þessu ákvæði sem í honum sjálfum stendur. Í því efni skiptir engu þó Æseifur II verði felldur.

Kom nú til sögu Æseifur II Svavarsson. Samningur, sem var laminn í gegn með ofstopa Breta og Hollendinga gegn lydduskap Svavars Gestssonar, sem hafði það helst sér til afbötunar að hann hefði ekki nennt að standa í þessu lengur! Hvar var nú íslenska þrautseigjan sem fleytti okkur í gegnum þorskastríðin? Ef Svavar hefði átt að stjórna þeim samningum, þá væri fiskveiðilögsaga okkar 3 mílur frá ströndum í dag í stað þess að vera 200 mílur frá grunnpunktum, sem sumir eru langt frá ströndum landsins. Þetta er orðið viðurkennt um alla veröld fyrir mörgum áratugum síðan og allar þjóðir sem land eiga að sjó miða við 200 mílur eða miðlínu milli landa.

Saga Æseifs II tekur enda á morgun með þeim hætti að þjóðin mun hafna þeim ósköpum með hátt í sama hlutfalli nei-atkvæða eins og já-atkvæðin voru þegar kosið var um stofnun lýðveldisins. Þar með eru þau lög sem J+S lömdu í gegn fyrir síðustu áramót og verður ekki lýst með betra orði en hugtakinu landráð, að engu gerð. Á bak við lá alltaf Svavarsviðhorfið: Við nennum þessu ekki lengur og það er lífsnauðsynlegt að semja. Bara um hvað sem er. Samkvæmt lygaáróðrinum vorum við alltaf á síðasta snúningi. Við vorum alltaf að hrapa fram af bjargbrúninni ofan í hyldýpi myrkurs. Nú eru liðnir margir mánuðir og ekkert hyldýpi myrkurs er greinanlegt ennþá, þvert á móti eru margar smátýrur í grámanum. Þar ber hæst skeleggar greinar sem birst hafa í ýmsum dagblöðum og fagtímaritum eins og Financial Times, þar sem málin hafa margoft verið reifuð rétt og nú síðast lagt til það sem alltaf hefur blasað við að væri rétta lendingin í málinu: Bretar hirða Landsbankann í Bretlandi og sjá sjálfir um að koma eigunum í verð. Ef eitthvað stendur út af þá axla þeir það sjálfir, sem sinn hluta af ábyrgðinni. Sama gildir um Hollendinga að sjálfsögðu. Við höfum vel efni á að bíða alllengi eftir þessari niðurstöðu, sem mun nást á endanum ef samningamenn taka á málunum með þeirri þrautseigju sem áður einkenndi íslenskar samninganefndir.

Skjaldborg heimilanna: Þetta er nú orðið grátbroslegasta djók allrar sögu lýðveldisins. Hver silihúfan upp af annarri í formi sértækra ráðstafana fyrir þá sem eru búnir að missa allt sitt og eru helst af öllu dauðir úr hungri og harðrétti áður en nokkuð er fyrir þá gert.  Sífellt er lengt í hengingarólinni, en þú skalt sko hengdur fyrr en síðar. Ekki bólar á aðgerðum í þá veru að slá af verðtryggingunni, sem allt er að drepa í ofanálag við allar hækkanir lána og innfluttrar vöru vegna hruns hinnar gjörónýtu íslensku krónu. Í skattamálum var sú ein leið fær að hækka skatta og fjölga sköttum með þeim afleiðingum að fjöldi fyrirtækja flúði land og hundruð starfa ef ekki þúsundir fóru í glatkistuna. Allur sá fjöldi fer á atvinnuleysisbætur, engar skatttekjur innheimtast af þeim né heldur þeim fyrirtækjum sem fólkið vann hjá. Þungavinnuvélar voru fluttar úr landi í stórum stíl, svo að nú er varla til tækjabúnaður til að sinna því sem þó stendur til að hrinda í framkvæmd á næsta sumri. Þar er rétt að nefna 6 kílómetrana (vá maður: 6000 metrar!!) sem til stendur að tvöfalda af Suðurlandsveginum. Niðurstaðan er sú að skattahækkanir skjaldborgarsmiða draga úr skatttekjum ríkisins og auka mjög á vandann.

Allir vita hvernig fór um lánið frá Rússum. Allir vita hvernig AGS hefur ekkert gert til góðs. Allir vita hvernig Skandínavar allir sem einn hafa neitað okkur um lán. Og það er samt allt í lagi ennþá! Svoleiðis að við sem þjóð getum höndlað það. Útflutningstekjurnar eru sem stendur meiri en sem nemur innflutningi. Ljóst er að því þarf að halda í allnokkur ár hið minnsta, en á því munum við lifa. Við eigum líka gífurleg tækifæri í ferðaþjónustu, því að allt í einu er Ísland orðið í hópi ódýrari ferðamannalanda. Og landið fær endalausa og ókeypis auglýsingu í hvert sinn sem fjallað er um Æseif erlendis, því að nánast alltaf fylgja með myndir af íslenskri náttúru.

Á mörgum fleiri sviðum eru sóknarfæri, en það þarf að nýta þau með öflugum hætti.  Eitthvað það gáfulegasta sem stjórnvöld gætu gert væri að draga skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki til baka og stórlækka virðisaukaskatt. Það væri öflug innspýting í atvinnulífið ogkæmi heimilum til góða. Síðan mætti lækka verðtrygginguna um helming með því að lögbinda að hún megi að hámarki vera helmingur af hækkun lánskjaravísitölu hverju sinni. Þetta hefði átt að vera fyrsta verk Skjaldborgarstjórnarinnar. Með því hefði náðst sá jöfnuður að þeir sem veittu lánin án þess oft á tíðum að tryggja þau með gildum veðum, bæru ábyrgð til jafns við hina, sem ábyrgðarlaust skuldsettu sig langt um fram eigur og tekjur. Það væri réttlæti. En J+S létu lífeyrissjóðina kúga sig. Þau höfðu ekki bein í nefinu til að standa uppi í hárinu á þeim og framkvæma það sem augljóslega þurfti að gera.

Þannig hefur þeim stjórnarherrunum J+S tekist að svíkja öll sín loforð og er það auðsætt öllum nema þeim sjálfum. Í augum sjálfra sín eru þau heilög og hafa alltaf staðið vaktina. Jájá.....

Að lokum er rétt að greina frá því að sleggjudómarinn sjálfur kaus þessa bö..... hörmung og lýsir sig þar með sekan um að hafa trúað fagurgalanum og innihaldslausum loforðum um lausnir allra vandamála og afnám leyndar við afgreiðslu mála. En það er stutt á milli ástar og haturs. Reyndar var þó aldrei um ást að ræða af minni hálfu, heldur taldi ég mig kjósa það sem skást var af öllu illu. Ég hata þau heldur ekki núna þó að mér sé meinilla við alla flokka sem komið hafa nálægt stjórnmálum á Íslandi síðustu árin. Ég get engum þeirra treyst. Nú er staðan sú að ég get ekkert kosið.


mbl.is Tilbúnir til frekari viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 773

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband