Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Löglegt en siðlaust

Einu sinni var ungur stjórnmálamaður á Íslandi, sem ávann sér virðingu margra, fylgi sumra og botnlaust hatur ýmissa. Hann hafði hugsjónir. Mörgum þótti hann stóryrtur, því að hann skóf aldrei utan af hlutunum og sagði meiningu sína eins og hún var, hvernig sem einhverjum kynni að líka það. Orðtak hans þegar hann gagnrýndi ýmislegt, sem honum þótti betur mega fara, var: LÖGLEGT EN SIÐLAUST. Við vitum öll hver hann var. Blessuð sé minning hans.

Þessi orð eiga vel við allt of margt, sem er að gerast í þjóðfélaginu þessa mánuðina og jafnvel síðustu árin. Einkavæðing bankanna, svo að dæmi sé tekið, var fullkomlega lögleg eins og hún var framkvæmd, en jafnframt fullkomlega siðlaus. Margar ráðningar í háar stöður á síðustu árum hafa verið löglegar en jafnframt siðlausar. Lánin, sem eigendur bankanna, hver um annan þveran, veittu sjálfum sér ýmist án veða eða án viðunandi veða að mati bankanna sjálfra, voru hugsanlega lögleg (það á vafalaust eftir að reyna á eitthvað af því fyrir dómstólum) en jafnframt hámark siðleysisins.

Það er svo margt að í þjóðfélaginu okkar. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde var að hrynja eftir síðustu áramót, komu núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra dögum oftar fram í viðtölum við alla mögulega og ómögulega fjölmiðla. Þá gagnrýndu þau að sjálfsögðu leynd og pukur og sögðu alltaf að ef þau kæmust nú að eftir kosningar yrði "allt uppi á borðinu", sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en sem svo að þau myndu ekki leyna þjóðina neinu, heldur yrði sagt frá hlutunum eins og þeir væru svo að menn vissu alltaf að hverju þeir gengju. Sú hefur aldeilis ekki orðið raunin. Til dæmis var það ætlun þeirra að pína samþykkt Æseifs í gegnum þingið meira að segja án þess að þingmenn, hvað þá þjóðin, fengi að sjá þetta plagg. Alþingi varð að beita valdi sínu til þess að pína æðstu menn ríkisstjórnarinnar til að leggja gögnin á borðið. Allt var þetta löglegt, en fullkomlega siðlaust af Jóhönnu og Steingrími að ætlast til þess að málið yrði samþykkt með þeim hætti sem þau vildu upphaflega viðhafa.

Ég verð að játa mig sekan um að hafa stutt annan núverandi stjórnarflokka í síðustu kosningum. En það stafaði reyndar ekki af því að mér litist svo vel á þennan flokk, né heldur þá framtíðarsýn sem mér fannst blasa við um stjórn eftir kosningar, heldur bara hitt, að allir aðrir kostir voru að mínu mati verri. Ég valdi semsagt illskásta kostinn.

Fyrir skömmu var lykilskjölum lekið út úr Kaupþingi. Þar var um að ræða lánabók gamla Kaupþings eins og hún stóð þann 25. september 2008, það er að segja bara nokkrum dögum fyrir hrunið. Hér er vissulega ekki um alla lánabók bankans að ræða, heldur aðeins þann hluta lánanna, sem voru að fjárhæð yfir 45 milljónir evra. Þessi fjárhæð er á núverandi gengi íslenskrar krónu (sem reyndar er allsendis óviðunandi mælitæki á verðmæti) nokkurn veginn 8,1 milljarður króna (1 EUR = 180 ISK samkvæmt viðskiptavef mbl.is 5. ágúst 2009). Um það bil 250 aðilar skilst mér að hafi skuldað meira en þetta og allt upp í 1,25 milljarða evra, sem skráð er á Exista group eftir því sem mínar heimildir greina. Þessi ævintýralega fjárhæð mælist í örkrónum þess 5. ágúst 2009 nokkurn veginn 225 milljarðar ISK. Sú tala lítur svona út: 225000000000 kr. Lánastarfsemi af þessu tagi er algjörlega hið fullkomna siðleysi.

Sumir hafa áfellst þann/þá sem láku þessum gögnum og vísað til þess að það sé fullkomið lögbrot. Vafalaust er það rétt eftir stífustu túlkun. Hins vegar hefur lengi verið rætt um það að aflétta þyrfti bankaleynd af nákvæmlega þessum hluta lána bankanna. Það er algjörlega við núverandi valdhafa að sakast að þeirri leynd skuli ekki hafa verið aflétt með lagabreytingu fyrir svona 2 mánuðum eða jafnvel fyrr. Svo segja bæði Jóhanna og Steingrímur að gott sé að fá þessar upplýsingar fram (ég er reyndar sammála þeim um það) en það er alveg þeirra eigin sök að það skuli nauðsynlega hafa þurft að gerast með ólöglegum hætti. Þetta er dæmi um það fornkveðna, að nauðsyn brýtur lög.

Þessi leki varð á svipstundu heimsfrægur og eru gögnin nú rannsökuð til hlítar af mörgum hæfum aðilum um allan heim. En mér er reyndar spurn: Halda menn virkilega að bankar í ýmsum öðrum löndum séu alsaklausir af svona löguðu? Mér dettur ekki í hug að trúa því. Ég held að bankastarfsemi almennt í fjölmörgum löndum, ef ekki flestum, sé á kafi í siðleysi af þessu tagi. Ástæða hrunsins hér er líklega smæð hagkerfisins umfram allt. Erlendir bankar fljóta flestir vegna þess að þeir eru varðir af mörg hundruð sinnum stærri hagkerfum en okkar. En þetta er skýring en alls ekki afsökun. Það afsakar ekki hegðun íslenskra banka að aðrir hafi gert slíkt hið sama í meira eða minna mæli.


Upphaf

Orð eru til alls fyrst. Allt þarfnast umræðu að einhverju marki, þó svo að vissulega sé markið stundum lágt. Ætti ég að skreppa í bíó í kvöld? er dæmi um úrlausnarefni, sem ekki þarfnast umræðu nema svona minimum.

Loks er þetta blogg byrjað. Oft hef ég hugsað, en alltaf frestað aðgerðinni. Af því bara. Þarfnast ekki umræðu.

Margt annað þarfnast umræðu. Tildæmis ástandið í þjóðmálum um þessar mundir. Svo mikið er að gera á þingi að þingfundum er frestað í 10 daga. Það er bara til þess að gefa stjórnarforsprökkum færi á því að handjárna eigin liðsmenn og tryggja þannig framgang Æseifs. Æseifur er auðvitað glapræði, en glapræði verða líka að fá framgang, því að annars gæti ekkert verið til, sem héti glapræði. Setjum sem svo að þingið felldi Æseif. Þá væri það ekki glapræði og Æseifur sem hefur verið felldur gæti því aldrei orðið að glapræði. Án Æseifs fáum við aldrei opnaðar lífsnauðsynlegar lánalínur. Það er ljóst að "vinir" okkar á Norðurlöndum, sem sögðust ekki tengja saman lán til okkar annars vegar og Æseif hins vegar, tengja þetta tvennt einmitt saman. Og áður en búið er að ganga frá lánsloforðum Skandínavanna til okkar neitar AGS að endurmeta stöðu okkar. En auðvitað er þetta samt algjörlega óháð. Jamm.


Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 735

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband