Færsluflokkur: Dægurmál

Dagarugl

Sleggjudómarinn sjálfur var að átta sig á dagarugli sínu. Hann hafði mánudag í gær og þriðjudag í dag og ber að lesa bloggið um jarðskjálftaspárnar í ljósi þess. En það reynir þá vissulega á spána nú í kvöld. Sjáum hvað setur.

Ekkert er gefandi fyrir umsögn veðurstofunnar um það að ekkert bendi til jarðskjálfta á næstunni. Það er bara vegna þess að aldrei hefur sú stofnun haft nokkurn skapaðan hlut sem gæti bent til jarðskjálfta akkúrat þegar hann reið yfir.

Ef jarðskjálftinn skellur á milli klukkan ellefu og tólf í kvöld, þá held ég að Madeleine McCann muni finnast innan skamms. Hvað á maður nú að vona?


Jarðskjálftaspár

Það hefur lengi verið draumur manna og þá kannski sér í lagi jarðvísindamanna að geta spáð fyrir um jarðskjálfta. Það hefur gengið illa. Fyrir skömmu kom fram kona nokkur og lét hafa við sig viðtal í Vikunni. Hún kvaðst oft hafa hringt í Veðurstofuna og varað þá við jarðskjálftum, sem hafi gengið eftir á þeim tíma sem hún fyrirfram tiltók.

Nú brá svo við að í þetta skipti, einmitt þegar svona mikið var við haft, þá kom ekki jarðskjálfti á þeim stað og tíma, sem spáin tiltók. Ææ.

En reyndar gerðist nokkuð merkilegt samt sem áður. Það urðu allstórir jarðskjálftar nákvæmlega á þessum tíma sem spáð var. Þeir voru eitthvað á stærð við Suðurlandsskjálftann 2008. Gallinn var bara sá, að jörð skalf ekki við Kleifarvatn á Íslandi, heldur á einhverri eyju í Indónesíu. Blessunarlega varð ekki manntjón.

Konan telur sig vita hvar Madeleine McCann er haldið fanginni í Portúgal. Hún skyldi þó aldrei vera á lífi í einhverju allt öðru landi? Óskandi væri að hún fyndist.


Björgólfar

Björgólfur. Hinn bjargandi, frelsandi álfur. Eða hitt þó heldur. Við eigum eina feðga, sem eru búnir að breyta merkingu þessa nafns til frambúðar. Hér eftir getur enginn tekið sér þetta nafn í munn án þess að hugsa um þjóf. Ég verð alveg að játa að þessi frétt um lán björgólfanna (viljandi með litlum staf, því að þetta er samheiti þjófa og fjárglæframanna) kemur mér ekki á óvart. Reyndar þó að einu leyti. Framúrkeyrslan er líklega miklu meiri en ég hefði giskað á.

Ég veit ekki hvaða refsing er við hæfi fyrir svona slöttólfa (ég meina björgólfa). Fangelsi er alls ekki viðeigandi, því að það er allt á kostnað ríkisins (minn og þinn) og þessir gaurar eru búnir að kosta okkur nóg. Sem betur fer fyrir þá, þá ræð ég engu. Því ef ég réði, þá yrðu settir upp gapastokkar á Lækjartorgi. Já, þið vitið, þessir gömlu og góðu, þar sem haus og hendur voru sett í viðeigandi stór göt og síðan lagður bjálki yfir. Læst með hengilás. Lyklinum hent í sjóinn. Öllum heimilt að spotta þá eða gera þeim hvaðeina annað til miska, en þó bannað að drepa þá. Allt annað leyfist. Þarna mættu þeir dúsa eins og í viku fyrir hvern milljarð sem þeir stálu. Það yrðu samtals fjölmörg ár. Á veturna mætti tjalda yfir þá, svona rétt til að halda í þeim tórunni.

Ég er svona glæpsamlega þenkjandi. Já, ég veit að það er ljótt. Gott fyrir þá að ég ræð engu. Kannski fá þeir að dveljast á Litla-Hrauns-hótelinu svona hámark í tvö ár á minn og þinn kostnað, étandi lúxusfæði og losna út eftir brot af dæmdum tíma. Það væri slæmt, því að á meðan er ekki hægt að loka inni barnanauðgara og aðra slíka, sem nauðsynlegt er að loka inni.

Þeir eru viðbjóður þessir björgólfar.


GlobalWarming

Heimshlýnun? Frábært ef satt væri. En þetta er bara bull. Merkilegt að stórgáfaðir vísindamenn skuli festast í slíkum ranghugmyndum. Heimshlýnunartrúaðir setja áróður sinn fram með viðmiði við 1880 eða svo. Það er bara vegna þess að það hentar þeirra málflutningi. Þessi mannskapur minnir á Greenpeace og WWF. Stefnan er bara sú sem hentar til þess að fá fé í sjóðina. Rök á móti málstaðnum eru ekki rædd nema í lítillækkandi tón og af fullkominni fyrirlitningu.

Í Bandaríkjunum er nýr forseti. Hann höfðar vissulega til mín. Ég hreifst mjög af Cairo-ræðu hans, sem var frábær.  Barack Obama er að gjörbreyta heimsmyndinni þessa dagana. Fíflið sem áður sat í Hvíta húsinu, var búinn að fá allan almenning veraldar upp á móti Bandaríkjunum. Obama hefur snúið þessu svo gjörsamlega við að hvarvetna hefur jákvætt álit á Bandaríkjunum vaxið og sums staðar meira en þrefaldast. Eina landið þar sem jákvæð afstaða íbúa til Bandaríkjanna hefur minnkað er Ísrael. Það stafar af yfirlýsingum Obamas um það að Ísrael verði að virða Palestínuaraba og hætta að stofna nýjar landnemabyggðir. En hann hefur jafnframt lýst því yfir að Palestínuarabarnir verði að hætta að skjóta eldflaugum á almenning í Ísrael og leggja niður sjálfsmorðssprengjuárásir. Það finnst Ísraelum greinilega lítið gefandi fyrir og verður svo að vera. Það ræður hver sinni afstöðu.

 

Eini gallin við nýja forsetann í Bandaríkjunum er sá, að hann skuli vera heimshlýnunartrúar. Þeirri trú fylgir þó það gott að hinir trúuðu eru áfram um að draga úr mengun mannskepnunnar. Það finnst mér gott mál, en vil að það sé gert á málefnalegum forsendum, en ekki vegna heimshlýnunartrúar.

Upphaf

Orð eru til alls fyrst. Allt þarfnast umræðu að einhverju marki, þó svo að vissulega sé markið stundum lágt. Ætti ég að skreppa í bíó í kvöld? er dæmi um úrlausnarefni, sem ekki þarfnast umræðu nema svona minimum.

Loks er þetta blogg byrjað. Oft hef ég hugsað, en alltaf frestað aðgerðinni. Af því bara. Þarfnast ekki umræðu.

Margt annað þarfnast umræðu. Tildæmis ástandið í þjóðmálum um þessar mundir. Svo mikið er að gera á þingi að þingfundum er frestað í 10 daga. Það er bara til þess að gefa stjórnarforsprökkum færi á því að handjárna eigin liðsmenn og tryggja þannig framgang Æseifs. Æseifur er auðvitað glapræði, en glapræði verða líka að fá framgang, því að annars gæti ekkert verið til, sem héti glapræði. Setjum sem svo að þingið felldi Æseif. Þá væri það ekki glapræði og Æseifur sem hefur verið felldur gæti því aldrei orðið að glapræði. Án Æseifs fáum við aldrei opnaðar lífsnauðsynlegar lánalínur. Það er ljóst að "vinir" okkar á Norðurlöndum, sem sögðust ekki tengja saman lán til okkar annars vegar og Æseif hins vegar, tengja þetta tvennt einmitt saman. Og áður en búið er að ganga frá lánsloforðum Skandínavanna til okkar neitar AGS að endurmeta stöðu okkar. En auðvitað er þetta samt algjörlega óháð. Jamm.


Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband