Færsluflokkur: Bloggar

Biskupi vafðist tunga um höfuð

Mér fannst merkilegt að hlusta á biskupinn í Kastljósinu í gær. Hann hélt því fram fullum fetum að hann gæti ekki rengt frásögn kvennanna sem ákærðu Ólaf Skúlason fyrir margt löngu. Gott hjá honum að rengja þær ekki. EN ... Hann gat með engu móti játað því að hann tryði sögu þeirra. Það fannst mér lítilmannlegt af honum. Því tek ég alveg undir það sem Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í viðtalinu í kvöld: Biskup þarf að játa það opinberlega að hann trúi þessum frásögnum, biðjast afsökunar fyrir hönd kirkjunnar (og jafnvel sjálfs sín) fyrir það hvernig EKKI hefur verið haldið á málum og gefa fyrirheit um það að framvegis verði mál af þessum toga (sem vonandi verða aldrei mörg) tekin föstum og ákveðnum tökum. Þeir sem ekki trúðu frásögnunum fyrir margt löngu geta varla efast eftir að dóttir biskupsins sáluga sagði sína sögu. Eða trúir séra Karl því kannski að hún ljúgi að ósekju upp á föður sinn látinn?
mbl.is Einsettu sér að opna umræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðskilnaður er nauðsyn

Það að kirkjan sé á ríkisjötunni tíðkast nánast hvergi á byggðu bóli nema hér. Ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi verður skoplegt í ljósi þess að ríkið styður síðan kirkjuna út í eitt. Samt hefur ráðherra kirkjumála, Ragna Árnadóttir, ekkert yfir prestum kirkjunnar að segja. Ríkið innheimtir gjöld fyrir kirkjuna, sem það ætti hvergi að koma nærri. Biskup og prestar þjóðkirkjunnar eru á launum frá ríkinu. Þetta getur ekki farið saman þó að því hafi verið velt svona í áratugi. Það er orðin algjör og bráð nauðsyn að vinna að aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er vissulega ekki einfalt mál, en því meiri ástæða er til þess að fara að bretta upp ermar og byrja. Gera áætlun og vinna svo eftir henni. Það kemur málinu ekkert við þó að margir prestar væru á móti slíku, þeir eiga engu meira að ráða um málið en hinn almenni borgari.
mbl.is Hvarflað að forsætisráðherra að segja sig úr þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál

Gott er að þetta skuli vera í höfn í bili. Auðvitað fá menn aldrei sínar ýtrustu kröfur, það hljóta allir að hafa vitað fyrirfram. Sáttatillagan siglir auðvitað bil beggja. En nú er eftir að sjá úrslit atkvæðagreiðslu.
mbl.is Slökkviliðsmenn sömdu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir það sem sagt er?

Fyrir margt löngu lærði ég eftirfarandi: Þegar orð eru sögð, þá skiptir öllu máli hvernig þau eru sögð. Ástæða þess að ritað mál er oft rangtúlkað og fólki eru gerðar upp skoðanir sem það alls ekki hefur er oft á tíðum sú, að einhver rangtúlkar eitthvað sem sagt hefur verið á prenti eða haft eftir einhverjum, jafnvel orðrétt. Alveg kjörið dæmi um þetta er setningin:

Ég sagði ekki að hann hefði stolið. Merkingin í þessu er alls ekki augljós nema að maður heyri þann sem gefur þessa yfirlýsingu segja þetta sjálfan. Þá fer hún fyrst og fremst eftir því hvar hann hefur áhersluna. Skoðum málið nánar. Ég nota hér feitletrun til að tákna áherslu og set innan sviga þá merkingu sem setningin gæti haft miðað við slíka áherslu.

1)    Ég sagði ekki að hann hefði stolið   (einhver annar sagði það)

2)    Ég sagði ekki að hann hefði stolið  (en reyndar hugsaði ég það)

3)   Ég sagði ekki að hann hefði stolið   (heldur einhver annar)

4)   Ég sagði ekki að hann hefði stolið  (hann fékk bara lánað)

Málhagir menn og konur geta líkast til snúið þessu á fleiri vegu, en punkturinn er sá, að ritað mál er auðvelt að misskilja og þar af leiðandi rangtúlka. Sá sem skrifar þarf að reyna að gæta sín á þessu og sá sem les jafnvel ekki síður.


Svaðbæli

Auðvitað lýsir enginn heilvita vísindamaður yfir goslokum á meðan sýður og kraumar í gígnum og jafnvel ekki fyrr en jökullinn er lagstur að mestu yfir opið aftur.

En eðjuflóðin sem nú er óttast að geti orðið og öskustreymið ásamt vatni niður í Svaðbælisá sýna svo að ekki verður um villst hvernig stendur á nafni árinnar. Þegar aurinn rennur niður í hana breytist hún í argasta svaðbæli og það hefur gerst áður. Þannig hefur nafnið komið til í árdaga.


mbl.is Vill ekki lýsa yfir goslokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 þúsund kílómetrar?

Hvaða ógnarvegalengd er allt í einu orðin á milli Íslands og Noregs? Veit fréttamaður ekki að ummál jarðar er 40 þúsund kílómetrar? 15 þúsund kílómetrar eru þá vegalengd sem slagar hátt upp í hálft ummál jarðar. Við værum líklega komin til Japan eða svo ...
mbl.is Fann vikurmola frá Eyjafjallajökli í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíðandi

Þau viðteknu vinnubrögð launanefnda sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar, að semja ekki og láta stéttir vera án samninga jafnvel svo árum skiptir, eru forkastanleg og ólíðandi. Oft hefur það gerst að samninganefndarmenn á vegum ríkisins hafa mætt á samningafund eftir dúk og disk til þess eins að lýsa því yfir að þeir hafi ekki umboð til þess að semja um eitt eða neitt. Til hvers var þá skipuð samninganefnd? Og til hvers voru þeir að mæta á fund?

Það verður að krefjast þess að í landinu séu starfhæf slökkvilið og sjúkraflutningaþjónusta. Það felur það í sér að það verður að semja við þessar starfsstéttir.  Þó held ég að það sé alveg ljóst að ekkert mun verða af samningum í dag og því skellur þetta 16 stunda verkfall á á morgun. Ég lýsi allri ábyrgð alfarið á hendur sveitarfélaganna og samninganefndum þeirra.

Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðandi og forkastanleg.


mbl.is Samningafundur hafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar Árna Páls, eitt lítið dæmi

"Við erum kunningjar..., en ég kannaði það sérstaklega hvort að ég ætti að víkja vegna hæfis, en það var ekki þannig." sagði Árni Páll Árnason í viðtali við fréttamenn. Með þessu orðavali sínu lætur hann að því liggja að hann hafi látið einhverja aðra fara ofan í saumana á því hvort honum bæri að víkja. Þannig eru lögin hins vegar ekki. Það metur það hver og einn sjálfur hvort hann telur sig vanhæfan. Sá sem telur sig ekki vera vanhæfan er það ekki samkvæmt laganna bókstaf. Árni Páll hefði betur orðað þetta þannig: Ég velti því fyrir mér hvort ég væri vanhæfur til þessarar ráðningar en vegna þess að mér fannst þetta allt í lagi þá var ég ekki vanhæfur. Með því orðalagi hefði hann sagt satt. En með því að ýja að því þó óbeinlínis sé, að hann hafi látið aðra meta þetta, þá lýgur hann.
mbl.is Vissi að Runólfur tapaði fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki formaður

Ingibjörg Sólrún er ekki formaður nefndarinnar. Ingibjörg Sólrún er ekki einu sinni í nefndinni. Hafa nokkuð sést betri ekkifréttir upp á síðkastið?
mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarsúlan

Friðarsúlan er tendruð í Viðey 9. október ár hvert til að fagna afmæli Lennons, en ekki 8. desember til að minnast dauða hans.
mbl.is Banamaður Lennons brátt frjáls á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1132

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband