Færsluflokkur: Bloggar

Áfrýjun

Það er ljómandi gott að Árni skuli áfrýja þessu. Þar með mun hann vafalaust hljóta áfellisdóm æðsta dómstóls þjóðarinnar fyrir afglöp í starfi sínu sem settur dómsmálaráðherra. Hann bara tók við málinu, vitandi fullvel hvað sitjandi dómsmálaráðherra vildi og jafnframt hvað fyrrverandi formaður flokksins hans vildi. Það þótti honum nægja og brást fullkomlega þeirri skyldu sinni að kanna málið sjálfstætt. Hann kannaði ekkert, heldur bara dreif sig í skítverkið og ataði sjálfan sig auri upp að öxlum. Honum virðist ekki finnast neitt athugavert við framgöngu sína þó að áhorfendum öllum hafi ofboðið.
mbl.is Árni áfrýjar dóminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamannamálfar

Í fréttinni er haft eftir Jóhönnu: „Alvarlegra er að lög eru leidd að því að stjórnendur þeirra hafi ekki einvörðungu farið á svik við lög og reglur heldur einnig brotið gegn lögum í veigamiklum atriðum.“ Ekki vil ég trúa því að hún hafi hagað máli sínu með þessum hætti og trúi ég þó ýmsu misjöfnu upp á hana. Menn leiða ekki lög að neinu, heldur rök. Svo fara menn heldur ekki á svik við eitt eða neitt og ekki einu sinni lög eða reglur. Hins vegar er mjög algengt að menn fari á svig við bæði lög og reglur. Þannig ætti þessi málsgrein að vera: „Alvarlegra er að rök eru leidd að því að stjórnendur þeirra hafi ekki einvörðungu farið á svig við lög og reglur heldur einnig brotið gegn lögum í veigamiklum atriðum.“ Mér þykir trúlegt að þannig hafi þetta verið hjá Jóhönnu, en fljótfærum fréttamanni hefur tekist að fara „á svik“ við íslenskt mál og brjóta lög þess og reglur. En það er nú bara vort daglega brauð.

Jóhanna, hættu bara...

Þeir sem tæmdu bankana, viðskiptamógúlar og bankamenn, bera ábyrgðina. Vissulega bera þeir ábyrgð. En hver er ábyrgð ráðamannanna, þar á meðal Jóhönnu, sem horfðu á aðfarir þeirra með velþóknun og gerðu aldrei neitt til að stemma stigu við óförunum?

Jóhanna hefur líka látið undir höfuð leggjast að gera nauðsynlegar umbætur í þágu þeirra sem verst hafa orðið úti af völdum þjófanna. Hún hefur verið of upptekin við að berjast fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga alla tíð þessarar ríkisstjórnar ásamt Steingrími, að ekki hefur verið hægt að gera neitt af viti.


mbl.is „Létum þetta líðast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhönnu ber að víkja

Jóhanna var ráðherra í Hrunstjórninni. Það voru Össur og Kristján Möller líka. Þau ættu öll að sjá sóma sinn í að taka pokann sinn. Ég skil ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að hluta sem ádrepu á þau. Þegar IGS segir að rannsóknarnefnd Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu, að hún beri ekki ábyrgð vegna þess að fjármál og bankamál heyrðu ekki undir hana, en henni finnist samt að hún hafi brugðist, þá á þetta algjörlega við um þessa þrenningu líka. Þau gegndu ráðherraembættum sem höfðu ekki með þessa málaflokka að gera, en Ingibjörgu Sólrúnu finnst að þau hafi brugðist eins og hún sjálf. Það er vissulega rétt mat.
mbl.is Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt! En ég er hissa!

Nei, þessu bjóst ég aldrei við. Loksins hefur einn íslenskur pólitíkus horfst í augu við sjálfan sig. Ég átti ekki von á því að fyrst allra til slíks yrði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. En lengi skal manninn reyna. 

Hversu lengi skyldum við þurfa að bíða áður en nokkur annar játar það að hann/hún hafi brugðist? Það örlar ekki á slíku hjá Geir Haarde, svo að einn sé nefndur. Ég vil líka nefna Jóhönnu og Steingrím. Þau hafa bæði brugðist mjög illa, en ég hef ekki trú á því að þeim finnist það sjálfum. Hvað þá að þau geti nokkurn tímann játað slíkt.


mbl.is „Mér finnst ég hafa brugðist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru hrunmeistarar loksins að byrja að gefa sig?

Loksins. Illugi og Þorgerður Katrín farin, það er vissulega af hinu góða. En þetta er bara hvergi nærri nóg. Hvað með Jóhönnu? Hvað með Össur? Hvað með Kristján Möller? Og alla hina þingmennina sem voru á þingi og í allskonar embættum fyrir og eftir hrun? Við þurfum að losna við allt heila gengið. Þau eru löngu búin að sanna sig óhæf og þeim ber að víkja. Ég vil líka losna við Steingrím en það er af allt annarri ástæðu. Ég vil hann út vegna þess að hann er örlagasvikari. Hann gaf stóra hrúgu af loforðum fyrir kosningarnar og ekkert af því hefur staðið. Hann er mesti kosningaloforðasvikari sem sést hefur í samanlagðri íslenskri stjórnmálasögu. Slíkum manni er ekki treystandi fyrir einu eða neinu. Út með hann. Og út með svo marga fleiri að ég nenni ekki einu sinni að nafngreina fjórðunginn. Allra flokka lið.
mbl.is Þorgerður stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræða eldgosið á Alþingi, til hvers?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson fara mikinn en hvað telja þeir að Alþingi eigi að gera í því að Evrópa skuli vera að lokast vegna öskufalls? Á að banna öskufallið? Á að lögbinda norðaustan átt, svo að strókinn leggi bara lengst út á Atlantshaf? Ég hef engan skilning á því hvað Alþingi gæti gert eða ætti að gera í málinu. Alveg sama þó að kallað sé eftir umræðu um það erlendis frá. Það er miklu þarfara að ræða um byggingu nýs Landspítala eða eitthvað annað ámóta.

mbl.is Aftur kallað eftir umræðu um eldgosið á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun

Loksins tók Björgvin rétta ákvörðun. Best hefði auðvitað verið ef hann hefði ekki boðið sig fram í síðustu kosningum. Mín skoðun er sú, að allir sem einhverju réðu þegar hrunið varð og áður, eigi að víkja af þingi. Jóhanna, Össur, Steingrímur ...  Við höfum ekkert við þetta lið að gera. Allir þeir í hópi þingmanna sem eru skuldunum vafðir og finnst það ekkert athugavert eiga sömuleiðis að láta sig hverfa. Hvað um þau Bjarna Benediktsson og Þorgerði Katrínu? Út. Allir þeir þingmenn sem eru heimilisfastir úti á landi og reka sýndarheimili í Reykjavík og þiggja fyrir það ótrúlegar fjárhæðir? Burt með þetta lið. Ég hef áður lýst þeirri skoðun að 2/3 hlutar þeirra sem nú eiga sæti á þingi ættu að hverfa þaðan. Alls ekki er þó þar með sagt að ég telji alla hina (1/3) vera hæft fólk. Ónei, langt frá því.
mbl.is Björgvin víkur af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhyggjuefni

Skiljanlegt er að ferðaþjónustuaðilar hafi áhyggjur af þessu gosi og öskufalli frá því. Auðvitað binda þeir vonir við að þetta verði skammvinnt gos. Þeir verða samt að verða meðvitaðir um það að síðasta gos úr Eyjafjallajökli stóð í tvö ár, 1821 til 1823 og var öflugast hálfu ári eftir að það byrjaði. Svo að í raun er þetta alveg óútreiknanlegt. Og svo er alltaf von á Kötlu kerlingu, sem er mörgum sinnum öflugri en þetta er. Þá fyrst rignir nú öskunni.
mbl.is Gríðarlegt áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagt er að landsdómur fjalli um málin

Það er tómt mál að tala um að kalla ekki saman landsdóm. Hlutverk hans er að skera úr um sekt eða sýknu ráðherra ef Alþingi ákærir hann fyrir vanrækslu eða önnur embættisafglöp. Nú hefur rannsóknarnefnd Alþingis lagt fram skýrslu sína og eru þar ábendingar um slíka vanrækslu að minnsta kosti þriggja fyrrverandi ráðherra. Einn þeirra hefur lýst þeim vilja sínum að landsdómur verði kallaður saman.

Nú á nefnd alþingismanna eftir að fjalla um þetta og ákveða hvað hún leggur til í málinu. Atli Gíslason segir að störfum nefndarinnar ljúki fyrir þinglok í september. Það ætti með öðrum orðum að skýrast á haustdögum hvað nefndin mun leggja til. En þá á Alþingi eftir að afgreiða málið.

Ég sé ekki betur en að ef landsdómur verður ekki kallaður saman, þá sitji þessir þrír fyrrum ráðherrar uppi með ávirðingarnar, hvort sem þeir myndu teljast sekir eða sýknir fyrir dómi. Eina leiðin fyrir þá til að hreinsa sig er að fá sýknudóm í landsdómi. Ekki er ég nú samt trúaður á að hlutirnir tækju þá stefnu. Mér finnst sekt þeirra vera augljós. Gott fyrir þá að ég á ekki sæti í landsdómi. Hér má sjá hverjir sitja þar (http://althingi.is/vefur/stjnefndirrad.html#merki7) auk forseta Hæstaréttar og þeirra 5 dómara við Hæstarétt sem lengst hafa starfað við réttinn.


mbl.is Landsdómur kallaður saman?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband