Færsluflokkur: Bloggar

Útaf Björn Valur

Ekki átti ég von á því að Vg myndi gleðja mig á nokkurn hátt. Samt er það svo að manni hlýnar um hjartarætur við þau tíðindi að Björn Valur Gíslason verði að líkindum aldrei aftur þingmaður í þeirra nafni. Þetta er einhver ákveðnasta höfnun sem ég man til að sitjandi þingmaður hafi nokkurn tímann fengið. Og dregur þá sennilega eitthvað úr þeim stráksskap á Alþingi, sem hvað mest hefur skert virðingu þess á þessu kjörtímabili. Hins vegar hefði grasrótin alveg mátt sparka hraustlega í fleiri.

Svo á nú eftir að koma í ljós hvert fylgi þessi ólánsflokkur fær sem slíkur. Ekki finnst manni að þátttakan í prófkjörinu lofi góðu fyrir þetta lið. Óskandi væri að þau hyrfu sem flest af þingi. Allra tíma lyga- svika- og afturhaldsflokkur.


mbl.is Katrín efst en Birni Val hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeð

Þvílíkt ógeð. En eins og venjulega er ekki hægt að treysta "þýðingum" hinna íslensku blaðurmenna. Tvisvar er í íslensku útgáfu fréttarinnar talað um mænu. Bara til upplýsingar blaðurmenninu þá er mæna ekki hluti af beinagrind mannsins. Ryggrad þýðir ekki mæna, heldur hryggsúla.  Einnig er hvergi í sænsku blöðunum talað um neitt sem heitir "Náriðillinn ég". Hins vegar er sagt frá því að á tölvu konunnar var textaskrá sem hún hafði skrifað undir heitinu "Min nekrofili" eða svona nokkurn veginn "dauðadýrkunin mín". Það er varla til of mikils mælst að ætlast til þess að notaðar séu orðabækur þegar reynt er að þýða úr erlendum fréttablöðum. En líklega er ástandið þannig að blaðurmennið er svo visst í sinni sök að það gerir sér enga grein fyrir því að það skilur ekki  hlutina réttum skilningi. Svo er bara vaðið áfram í þoku.

Eitt er þó þakkarvert: Það er til fyrirmyndar að gefa upp tengil beint inn á fréttina á frummálinu, í þessu tilfelli ekki bara einn heldur tvo. Takk fyrir það.


mbl.is Hauskúpur notaðar í kynlífsathöfnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

47 börn látin eftir áreksturinn

Þetta hrikalega slys virðist hafa hlotist af skorti á aðgæslu hjá ökumanni rútubílsins. Þegar hafa tveir menn sagt af sér: samgönguráðherrann og yfirmaður járnbrautarmála í Egyptalandi. Sjá menn fyrir sér að slíkt ætti sér stað á Íslandi? Hér brjóta ráðherrar lög eins og ekkert sé sjálfsagðara, ganga gegn vilja þjóðarinnar í mjög veigamiklum málum hvað eftir annað og hlæja svo upp í opið geðið á fólki.
mbl.is 47 börn látin eftir áreksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lést í sprengju (?)

Aldrei slíku vant er þessi frétt þolanlega skrifuð. Það er þó eitt sem verður að benda blaðurmenni á. Það er sú staðreynd að fólk deyr ekki í sprengju, ekki einu sinni þó að það sé vegasprengja. Hins vegar geta menn farist í sprengingu. En sprengja og sprenging er ekki það sama þó að vissulega sé hvort öðru háð.
mbl.is Lést á leiðinni heim af fæðingardeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálflýsandi veglínur

Þetta er náttúrulega bara snilldin ein. Af hverju datt mér ekki þetta í hug? geta margir spurt. Kostirnir eru svo augljósir. Við vonum bara að slitstyrkur málningarinnar sé sambærilegur við efnin sem nú eru notuð. Annars væri lítið gagn í þessu.
mbl.is Sjálflýsandi veglínur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kikhósti

Ekkert er til sem heitir kikhósti. Sjúkdómurinn heitir kíghósti og það hefði blaðurmennið getað fundið með því að nota orðabók eða bara að spyrja næsta mann, því að flestir vita þetta.
mbl.is Kíghósti meðal ungra barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlögum sýndar tennurnar

Glæsilegasta óperasjón íslenskrar lögreglu frá upphafi. Aldrei má gefa glæpalýðnum frið og verður vonandi skammt að bíða næstu aðgerða. Ástæða er til að óska lögregluliðinu til hamingju. Nú reynir á dómskerfið og er vonandi að sem flestir þessara 16, sem handteknir voru, hljóti dóma.
mbl.is Útlögum sýndar tennurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt málfar blaðurmennis

Þvílíkur skortur á málkennd. Þetta er augljóslega skrifað af blaðurmenni en ekki blaðamanni. Fyrirsögnin: Fann ein milljónir á götunni. Hér hefði átt að standa: Fann eina milljón á götunni. Eins og fyrirsögnin er þá þýðir hún það að ein (kona) fann (margar) milljónir á götunni. En engan veginn er átt við það samkvæmt fréttinni sjálfri.

Svo kemur málsgreinin "Norðmanninum Arnt Roger Myrvoll brá heldur betur í brún þegar hann fann möppu á götu í Finnsnes sem var full af peningum." Þetta er ósköp kauðskt. Betur hefði farið á að segja "Norðmanninum Arnt Roger Myrvoll brá heldur betur í brún þegar hann fann möppu fulla af peningum á götu í Finnsnes."

Og áfram er haldið: "Í möppunni reyndust vera 48 þúsund norskar krónur sem jafngildir um eina milljón íslenskum krónum." Rétt íslenska er að segja "... sem jafngildir um einni milljón íslenskra króna."

Ekki er hringlandahættinum þar með lokið. "Myrvoll segir í samtali við Nyrlys að það hafi aldrei komið annað til greina í sínum huga..."  Æ, æ. Nokkrum línum ofar hét dagblaðið Nordlys. Mjög fljótlegt er að ganga úr skugga um að það er hið rétta, ekkert er til sem heitir Nyrlys. Í framhaldinu hefði verið miklu betra að segja "... að aldrei hafi annað komið til greina...".

Að lokum: "Hann segist vona að flestir í þessari stöðu hefðu gert það sama." Betra væri að segja: Hann segist vona að flestir hefðu gert það sama í sínum sporum.

 

 


mbl.is Fann eina milljón á götunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfar: utanveltu / afvelta

Ég var að horfa á sjónvarpssöfnunarþáttinn Á allra vörum sem var stórkostlega vel heppnaður í alla staði. Dorrit var stórkostleg eins og hennar var von og vísa og vantar nú bara ljósan lokk frá Ólafi til þess að fullkomna þann safngrip.

Ég hnaut samt um eitt í þættinum en þá komst annar stjórnandinn svo að orði að einhver væri utanvelta*.  Þannig er bara ekki sagt á ástkæra, ilhýra. Við segjum að einhver sé utanveltu. Svo er aftur á móti það að vera afvelta og það hefur kannski ruglað sjónvarpsmanninn.

Merking orðtaksins að vera utanveltu  er sú að einhver er án félagslegra tengsla.

Merking orðtaksins að vera afvelta er sú að einhver (skepna) liggur á hryggnum og getur ekki komið undir sig fótunum.

En aldrei er talað um að vera utanvelta*.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband