Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er að?

Hvers vegna gátu nú alþingismenn ekki séð sóma sinn í því að ganga frá almennri löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur? Það er ósköp hálfvitalegt að samþykkja lög sem ná til þessarar einu þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir þá að næst þegar til slíks kemur, sem vissulega mun verða von bráðar ef Alþingi heldur uppteknum hætti sínum, verður aftur að ræða og samþykkja sérstök lög um þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eins og blessuðu fólkinu sé fyrirmunað að vinna nokkurn skapaðan hlut af viti eða með fyrirhyggju nú í seinni tíð. Og hörmungin er samþykkt samhljóða með 49 atkvæðum. Það þýðir að 14 hafa ekki greitt atkvæði, annað hvort hafa þeir setið hjá eða verið fjarverandi. Væru fréttamenn nú ekki fáanlegir til að upplýsa það hverjir þessir 14 eru?
mbl.is Lög um þjóðaratkvæði samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly eins og frelsandi engill

Alveg er hún mögnuð þessi kona, Eva Joly. Það mætti halda að hún væri forsætisráðherra Íslands en ekki skömmin hún Jóhanna, sem hefur ekkert gert að því er séð verði til þess að berjast fyrir málstað þjóðarinnar. Hún hefur bara lagst flöt eins og barinn hundur og beitt sér með oddi og egg fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga og barði ásamt Steingrími J. í gegn lög sem afnema fyrirvara Alþingis frá því í sumar. Ég held að það jaðri við landráð.

Greinin sem Eva skrifaði í haust vakti mikla athygli bæði í Hollandi og Bretlandi þó svo að allir hafi gleymt henni núna. Því kemur þetta viðtal á réttum tímapunkti og mun fá marga í báðum þessum (ó)vinalöndum okkar til að hugsa um stöðuna. Aumingjarnir okkar, sem eiga að heita ríkisstjórn Íslands, gera á sama tíma ekkert nema ógagn og munu berjast með kjafti og klóm fyrir samþykkt afglapa sinna, sem þessi nýsamþykktu "lög" þeirra eru.


mbl.is Joly harðorð í garð Hollendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brak?

Sokkin skip eru venjulega kölluð flak en ekki brak. Svo er það myndin og texti hennar: Hms Cornwall er 148 metra löng freigáta. Hvað kemur þessi freigáta fréttinni við? Hún er hvergi nefnd þar.
mbl.is Brak HMS Volage fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsmálaráðherra hætti við niðurskurð

.... las ég og hélt því að dómsmálaráðherra hefði hætt við niðurskurð. En svo las ég fréttina og áttaði mig þá á því að dómsmálaráðherra hafði alls ekki hætt við niðurskurð (og mundi kannski alls ekki gera það). Hér var hins vegar um áskorun að ræða, þ.e. ósk eða von einhvers, sem beindi tilmælum til dómsmálaráðherra. Þannig var fyrirsögnin í viðtengingarhætti, en ég hafði skilið hana í þátíð. Þannig leiddi þessi fyrirsögn mig á algjörar villigötur.
mbl.is Dómsmálaráðherra hætti við niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pissað í skóinn

Þetta lýsir því hvernig stjórnvöld geta með vankunnáttu sinni framið hryðjuverk á eigin þjóð. Þessi skattur verður til þess að fæla fyrirtæki frá, draga gífurlega úr atvinnu og lækka þar með skatttekjur ríkisins til muna frá því sem annars hefði verið. Er ekki verið að pissa í skóinn sinn?
mbl.is Í bið vegna orkuskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein Knuts Ødegård

Gaman að sjá að til skuli vera Norðmaður, sem kann að meta framlag Íslendinga til varðveislu norskrar sögu og hefur bein í nefinu til að koma því á framfæri. Ef ekki væri fyrir framlag Snorra Sturlusonar á 13. öld og Þormóðs Torfasonar, föður norskrar sagnfræði, á 17. - 18. öld vissu Norðmenn harla lítið um sögu sína. Knut Ødegård á heiður skilinn fyrir þessa grein sína hvað það varðar að vekja athygli á því hvernig menningararfinum var til skila haldið. Hvað peningalegu hlið málsins varðar ætla ég ekki að tjá mig um að svo komnu og kannski aldrei.

mbl.is Norðmenn eiga Íslendingum sjálfsvitundina að þakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

er eitthvað að gerast af viti. Það er löngu vitað, viðurkennt og yfirlýst að enginn Íslendingur ræður við svikamyllur af þessu tagi og stærðargráðu. Þess vegna er algjör nauðsyn á að fá öflugan og stóran her útlendinga (betra væri samt að það væru ekki allt Bretar, mættu til dæmis vera Bandaríkjamenn líka) til samstarfs við þá fáu Íslendinga sem ekki eru vanhæfir vegna flokksbanda, blóðbanda og kunningjatengsla til þess að fjalla um þessi glæpamál öll. Þetta hefði átt að vera komið í gang fyrir næstum heilu ári.
mbl.is Auknar líkur á breskri rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgar

Alveg er þetta lýsandi fyrir öfgakenndan hugsunarhátt allt of margra Bandaríkjamanna. Refsigleðin ræður ríkjum í allt of miklum mæli. Stundum er þörf á að refsa og stundum ekki. Er það ekki málið?
mbl.is Sex ára dreng refsað vegna hnífapara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verstu fréttir allrar Íslandssögu látnar bíða

Niðurstöður þessarar nefndar liggja sem sagt ekki fyrir. En hitt liggur fyrir síðan fyrir 8 vikum eða svo, að þegar niðurstöðurnar koma, þá verða það verstu fréttir sem nokkur nefnd hefur þurft að færa þjóð sinni. Eða svo sagði Páll Hreinsson í viðtali í sjónvarpi fyrir svona tveimur mánuðum. Vonum að þrátt fyrir vondar fréttir þá verði niðurstaðan ekki dregin á langinn aftur og aftur og aftur svo að allir gefist upp á að bíða. Vonum að allt verði dregið fram í dagsljósið, hversu afkáralegt og skelfilegt sem það nú kann að vera. Við viljum fá sannleikann upp á borðið. Engan hálfsannleika takk, sem oftast er óhrekjandi lygi. Við höfum fengið nóg af óhrekjandi lygi að undanförnu.
mbl.is Rannsóknarskýrslu seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Give Peace a What?

Hvers konar kjánar eruð þið blaðamenn á mbl.is? Ekkert lag er enn til sem heitir Give Peace a Change og Yoko Ono hefur aldeilis ekki sungið neitt slíkt. Hins vegar hefur hún vafalaust sungið frægt lag eftir eiginmann sinn, John Lennon, sem heitir Give Peace a Chance. Það er munur á Change og Chance.
mbl.is Yoko söng Give Peace a Chance
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband