Færsluflokkur: Bloggar

Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða ...

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt undir fyrirsögninni Nýjar útfærslur breyta ekki afstöðu stjórnarandstöðu og Mogginn segir á sinni forsíðu Enn algjör óvissa uppi um Icesave; Stjórnarandstaðan segir fyrirvara stjórnarinnar ekki ganga nógu langt. Reyndar eru þetta ekki fréttir, því að þetta var löngu vitað. Stjórnarandstaðan er auðvitað stjórnarandstaða og ekki þarf sérstaklega að gera ráð fyrir að sú afstaða breytist þrátt fyrir einhverja fyrirvara.

Málið snýst hins vegar um stjórnarliðana. Þrír eru þekktar stærðir, þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson. Þau hafa öll gefið upp að þau séu á bandi stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Aðrir Vg menn eru sumir hverjir óráðnir. Málið snýst algjörlega um það eitt hvort Steingrími tekst að tryggja fylgispekt þeirra við ríkisábyrgðina eða ekki. Ef við treystum því að ekki snúist fleiri af stjórnarliðum gegn þessu máli þá er staðan 31/32 og málið fellur ef enginn situr hjá. Ef þeir þrír Vg menn sem eru andvígir velja þann kost að sitja hjá þá er staðan 31/29 og málið fer í gegn. Svo að fréttir og fréttaskýringar ættu að snúast um þá, sem eru í stjórnarliðinu en samt á móti þessum samningi þrátt fyrir ýmsa fyrirvara, sem og þá sem eru óráðnir.

En hér er ég að gera því skóna að Borgarahreyfingin taki afstöðu gegn ríkisábyrgðinni, en það er þó ekki víst, til dæmis hefur Birgitta talað líklega. Þeir eru til alls líklegir og eiginlega er ekkert sem bendir til þess að þeir greiði atkvæði á einn veg frekar en annan, auk þess sem samstaðan í hópnum er ekki upp á marga fiska. Það getur því allt gerst ennþá en Stg+Jóh eru ekki tilbúin að hleypa málinu áfram enn sem komið er. Við hin bíðum í ofvæni.


Skelfingarfréttir

Mér sýnist að þær fréttir sem Rannsóknarnefnd Alþingis kemur til með að flytja þjóðinni þann 1. nóvember næstkomandi muni varpa ljósi á gjörðir og ábyrgð æðstu valdamanna þjóðarinnar. Mér fannst það skína út úr véfréttalegum ummælum Páls Hreinssonar, að nauðsynlegt yrði (að hans mati) að skipa Landsdóm. Það apparat er alfarið á vegum Alþingis en hefur aldrei verið kallað saman. Hlutverk landsdóms er að fást við ákærur á hendur ráðherra vegna beitingar eða misbeitingar valds í ráðherratíð.

Hvaða ráðherrar hafa verið tengdastir útrásinni og því að skapa umhverfi, sem gerði öll þessi landráð framkvæmanleg?

Mér finnst ljóst að Páll vildi undirbúa almenning fyrir váleg tíðindi. Samt er spurning hvort það var rétt af honum. Öllum geta orðið á mistök og ég held að Páll hafi ekki gert sér grein fyrir því hverskonar skelfing grípur marga við svona ummæli ábyrgra aðila. Hins vegar er skiljanlegt að hann skuli ekki vilja greina frá hluta af heildinni, því að nefndin hefur alls ekki lokið störfum. Páll telur augljóslega að margt til viðbótar eigi eftir að koma út úr pokahornunum næsta ársfjórðunginn og hann vill ekki skýra frá neinu fyrr en heildarmyndin liggur fyrir að svo miklu leyti sem mögulegt reynist á þeim tæpu 10 mánuðum sem nefndin fékk til starfa sinna.

Í þessari stöðu hefði Páll Hreinsson helst ekki átt að leyfa viðtal við sig. Málin eru allt of viðkvæm eins og stendur. En bomban verður greinilega skelfileg.



Tryggingastofnun ríkisins

Framkoma Tryggingastofnunar ríkisins er til háborinnar skammar. Það er ekki furða þó að mikillar óánægju gæti vegna þess hvernig sú stofnun vogar sér að koma fram. Nú gera þeir kröfur sem ná út yfir gröf og dauða vegna þess að þeir sjálfir kunna ekki að reikna. Þeir fullyrða að bætur hafi verið ofreiknaðar svo að nemur mörgum milljörðum og vilja nú fá það fé endurgreitt. Bara krafan ein er opinber staðfesting þeirra sjálfra á því að þeir kunna ekki að reikna. Er aldrei vangreitt af hálfu þessarar stofnunar? Eru allar þeirra reiknivillur bara í aðra áttina?

Ég fullyrði að betra væri fyrir bótaþega að allt væri vanreiknað í upphafi og þeir fengju síðan uppbótargreiðslur seint og um síðir, heldur en að ofreikna og endurkrefja síðan bótaþegann um mismuninn.

 Maður bara bíður eftir því að þessi siðlausa stofnun, sem ekkert virðist geta reiknað rétt, krefjist vaxta af bótaþegunum fyrir ruglið úr sjálfri sér. Hvernig væri nú að stjórnendur stofnunarinnar skömmuðust sín og gerðu þá kröfu til starfsfólks að bætur séu rétt reiknaðar? Þetta er algjörlega ólíðandi ár eftir ár.


Glæta í myrkrinu

Loksins glittir í eitthvað. Í því svartnætti sem hefur ríkt undanfarið sér kannski loksins í glætu. Ég segi fyrir mig, að betur mun ég treysta niðurstöðu Bretanna en nokkurs Íslendings. Við erum öll með einhverja glýju fyrir augum af öllum mögulegum og ómögulegum ástæðum. Til dæmis: Ég þekki mann sem þekkir mann sem þekkir hann ....
mbl.is Bretar bjóða aðstoð við rannsókn á bankahruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmdarfýsn

Í fréttinni segir: "Sást til fullorðins manns, um fertugt, í brúnum frakka. Maðurinn er nær sköllóttur og ekur um á Opel Corsa. Hann skvetti rauðri málningu á hús og grindverk Hreiðars." Með öll þessi smáatriði ætti lögreglan að geta fundið manninn. Svo hefur hann væntanlega verið með rauðar (og kannski grænar?) málningarslettur á frakka sínum og líklega buxum og skóm. Nú er bara að fara í gegnum alla skráða Opel Corsa og athuga kyn og aldur eigandans að því gefnu að hann hafi verið á eigin bíl. Líkur eru á að stýri og jafnvel sæti og pedalar bílsins séu með málningarblettum.

 Það er undarleg árátta þessi skemmdarfýsn, sem hefur ekkert upp á sig nema að vekja andúð andúð almennings. Sú andúð beinist gegn málaranum en ekki þolandanum. Þannig snýst svona gjörningur alltaf í höndum gerandans. Hann verður enn meira fyrirlitinn en sá sem skeytunum var beint að í upphafi.


mbl.is Sást skvetta málningu á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löglegt en siðlaust

Einu sinni var ungur stjórnmálamaður á Íslandi, sem ávann sér virðingu margra, fylgi sumra og botnlaust hatur ýmissa. Hann hafði hugsjónir. Mörgum þótti hann stóryrtur, því að hann skóf aldrei utan af hlutunum og sagði meiningu sína eins og hún var, hvernig sem einhverjum kynni að líka það. Orðtak hans þegar hann gagnrýndi ýmislegt, sem honum þótti betur mega fara, var: LÖGLEGT EN SIÐLAUST. Við vitum öll hver hann var. Blessuð sé minning hans.

Þessi orð eiga vel við allt of margt, sem er að gerast í þjóðfélaginu þessa mánuðina og jafnvel síðustu árin. Einkavæðing bankanna, svo að dæmi sé tekið, var fullkomlega lögleg eins og hún var framkvæmd, en jafnframt fullkomlega siðlaus. Margar ráðningar í háar stöður á síðustu árum hafa verið löglegar en jafnframt siðlausar. Lánin, sem eigendur bankanna, hver um annan þveran, veittu sjálfum sér ýmist án veða eða án viðunandi veða að mati bankanna sjálfra, voru hugsanlega lögleg (það á vafalaust eftir að reyna á eitthvað af því fyrir dómstólum) en jafnframt hámark siðleysisins.

Það er svo margt að í þjóðfélaginu okkar. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde var að hrynja eftir síðustu áramót, komu núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra dögum oftar fram í viðtölum við alla mögulega og ómögulega fjölmiðla. Þá gagnrýndu þau að sjálfsögðu leynd og pukur og sögðu alltaf að ef þau kæmust nú að eftir kosningar yrði "allt uppi á borðinu", sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en sem svo að þau myndu ekki leyna þjóðina neinu, heldur yrði sagt frá hlutunum eins og þeir væru svo að menn vissu alltaf að hverju þeir gengju. Sú hefur aldeilis ekki orðið raunin. Til dæmis var það ætlun þeirra að pína samþykkt Æseifs í gegnum þingið meira að segja án þess að þingmenn, hvað þá þjóðin, fengi að sjá þetta plagg. Alþingi varð að beita valdi sínu til þess að pína æðstu menn ríkisstjórnarinnar til að leggja gögnin á borðið. Allt var þetta löglegt, en fullkomlega siðlaust af Jóhönnu og Steingrími að ætlast til þess að málið yrði samþykkt með þeim hætti sem þau vildu upphaflega viðhafa.

Ég verð að játa mig sekan um að hafa stutt annan núverandi stjórnarflokka í síðustu kosningum. En það stafaði reyndar ekki af því að mér litist svo vel á þennan flokk, né heldur þá framtíðarsýn sem mér fannst blasa við um stjórn eftir kosningar, heldur bara hitt, að allir aðrir kostir voru að mínu mati verri. Ég valdi semsagt illskásta kostinn.

Fyrir skömmu var lykilskjölum lekið út úr Kaupþingi. Þar var um að ræða lánabók gamla Kaupþings eins og hún stóð þann 25. september 2008, það er að segja bara nokkrum dögum fyrir hrunið. Hér er vissulega ekki um alla lánabók bankans að ræða, heldur aðeins þann hluta lánanna, sem voru að fjárhæð yfir 45 milljónir evra. Þessi fjárhæð er á núverandi gengi íslenskrar krónu (sem reyndar er allsendis óviðunandi mælitæki á verðmæti) nokkurn veginn 8,1 milljarður króna (1 EUR = 180 ISK samkvæmt viðskiptavef mbl.is 5. ágúst 2009). Um það bil 250 aðilar skilst mér að hafi skuldað meira en þetta og allt upp í 1,25 milljarða evra, sem skráð er á Exista group eftir því sem mínar heimildir greina. Þessi ævintýralega fjárhæð mælist í örkrónum þess 5. ágúst 2009 nokkurn veginn 225 milljarðar ISK. Sú tala lítur svona út: 225000000000 kr. Lánastarfsemi af þessu tagi er algjörlega hið fullkomna siðleysi.

Sumir hafa áfellst þann/þá sem láku þessum gögnum og vísað til þess að það sé fullkomið lögbrot. Vafalaust er það rétt eftir stífustu túlkun. Hins vegar hefur lengi verið rætt um það að aflétta þyrfti bankaleynd af nákvæmlega þessum hluta lána bankanna. Það er algjörlega við núverandi valdhafa að sakast að þeirri leynd skuli ekki hafa verið aflétt með lagabreytingu fyrir svona 2 mánuðum eða jafnvel fyrr. Svo segja bæði Jóhanna og Steingrímur að gott sé að fá þessar upplýsingar fram (ég er reyndar sammála þeim um það) en það er alveg þeirra eigin sök að það skuli nauðsynlega hafa þurft að gerast með ólöglegum hætti. Þetta er dæmi um það fornkveðna, að nauðsyn brýtur lög.

Þessi leki varð á svipstundu heimsfrægur og eru gögnin nú rannsökuð til hlítar af mörgum hæfum aðilum um allan heim. En mér er reyndar spurn: Halda menn virkilega að bankar í ýmsum öðrum löndum séu alsaklausir af svona löguðu? Mér dettur ekki í hug að trúa því. Ég held að bankastarfsemi almennt í fjölmörgum löndum, ef ekki flestum, sé á kafi í siðleysi af þessu tagi. Ástæða hrunsins hér er líklega smæð hagkerfisins umfram allt. Erlendir bankar fljóta flestir vegna þess að þeir eru varðir af mörg hundruð sinnum stærri hagkerfum en okkar. En þetta er skýring en alls ekki afsökun. Það afsakar ekki hegðun íslenskra banka að aðrir hafi gert slíkt hið sama í meira eða minna mæli.


Kaupþingslekinn

Mikið er gott til þess að vita að núverandi starfsfólk Nýja Kaupþings er ekki upp til hópa samviskulaust. Alveg er ljóst að innanhússmaður hefur lekið glærunum um þau 250 félög, sem mest skulduðu fáeinum dögum fyrir hrunið. Furðulegur var úrskurður sýslumannsins í Reykjavík, sem bannaði RÚV einum fjölmiðla að fjalla um málið. Hinir mega segja hvað sem andinn blæs þeim í brjóst. Það verður samt að telja líklegt að langflestir Íslendingar hafi sótt þessi gögn ef þeir á annað borð eru tölvulæsir. Svo kemur talsmaður Nýja Kaupþings og jarmar um traust! Ég fékk það á tilfinninguna að maðurinn skildi ekki orðið. TRAUST "viðskiptavina" væri meira virði en upplýsingagjöf til almennings! Vitandi það að allur almenningur átti greiðan aðgang að upplýsingunum og flestir voru þá þegar búnir að hlaða þeim niður hjá sér. Þvílík sýndarmennska. Þessi maður glataði á einu andartaki því mjög takmarkaða trausti sem ég hafði borið til hans. Ég er örugglega ekki einn um að vera í þeim sporum.

Glæsilegt

Þessi frammistaða verður að teljast glæsileg, til hamingju!

Samkvæmt fréttinni voru "okkar" menn undir lungann úr leiknum, en tóku sig stórum á í lokin og unnu sannfærandi. Það sýnir styrk liðsins getu til einbeitingar. Ef þessum styrk og einbeitingu, sem þarna var sýnd, verður beitt í leiknum gegn Króötum, má ganga að því vísu að "strákarnir okkar" sigra. En þá dugir ekkert annað en full einbeiting frá upphafi og aldrei má slaka á!


mbl.is Ísland leikur til úrslita um heimsmeistaratitilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Hugleiðingar

Höfundur

Magnús Óskar Ingvarsson
Magnús Óskar Ingvarsson
Er alveg að drepast úr besservisku og réttlætiskennd. Get sleggjudæmt í hverju máli sem verkast vill. Sleggjudómum verður ekki áfrýjað.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband